
Sérstakt svæði þar sem blaðamenn og fagfólk úr tónlistarbransanum getur unnið og hitt tónlistarfólk verður á Iceland Airwaves-hátíðinni sem hefst í næstu viku. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkt svæði verður á hátíðinni en Pedersen-svítan á efstu hæð Gamla bíós verður lögð undir starfsemina.
Sigtryggur Baldursson, framkvæmdastjóri ÚTÓN, segir að Iceland Airwaves hafi boðið fagfólki úr tónlistarbransanum á hátíðina frá upphafi.
„Þetta er eina hátíðin á íslandi sem er bókstaflega hönnuð til þess að vera sýningargluggi fyrir íslenska tónlist gagnvart umheiminum og hluti af markmiðum hátíðarinnar er einmitt að kynna íslenska tónlist fyrir erlendum aðilum sem geta hjálpað til við að koma henni á markað út um allan heim, segir hann.
Þetta fagfólk sem hefur verið að koma hingað reglulega er úr röðum útgefanda, tónleikabókara, stjórnenda tónlistarhátíða, tónlistarforleggjara og svo framvegis.
ÚTÓN hefur á síðustu árum komið meira að hátíðinni og þá sérstaklega vegna aðkomu fagfólks að utan. Síðustu fjögur ár hefur ÚTÓN séð um svokallaðan tengslamyndunarfund þar sem íslenskir tónlistarmenn sem koma fram á hátíðinni hafa fengið sendan lista af fagfólki sem hægt er að bóka fund við á ákveðnum tíma á fimmtudeginum og síðan ræða við á frjálsum tíma eftir fundinn.
Þá hefur ÚTÓN hannað kynningarfundi hjá STEF fyrir höfunda til þess að kynna tónlist sína fyrir svokölluðum „music supervisors“ eða tónlistarkaupendum fyrir sjónvarpsþætti, kvikmyndir og auglýsingar.
Sigtryggur segir að engin sérstök aðstaða fyrir fagfólk hafi verið inni á hátíðinni þar sem hægt er að halda til, vinna í góðu interneti og kaffi og hitta aðra aðila sem viðkomandi hafa áhuga á að tala við — kollega og tónlistarmenn.
„Þetta lið hefur gengið svo að segja sjálfala eins og kindur á fjalli og hefur það að sönnu verið hluti af sjarmanum í kringum þessa hátíð en flestir hafa verið duglegir að nýta sér off-venue dagskránna og kaffihús bæjarins,“ segir hann.
„En á síðustu árum höfum við fengið æ fleiri fyrirspurnir um svæði sem væru með hagsmuni þessa fólks í huga, svona eins og kallað er artist/industry area, á erlendum tónlistarhátíðum.“
Sigtryggur lofar metnaðarfullri dagskrá af fyrirlestrum, spjalli og pallborðsumræðum á Pederson-svítunni um ýmislegt sem forvitni vekur meðal tónlistarmanna og annars fagfólks í geiranum.
„Sérstaklega viljum við hvetja íslenska tónlistarmenn til þess að taka frá tíma á þessum annasömu dögum til þess að kynna sér eitthvað af þeirri metnarðarfullu fræðsludagskrá sem boðið er uppá fyrir þá í Pedersen-svítunni frá fimmtudegi til laugardags,“ og bendir á þessa upplýsingasíðu, máli sínu til stuðnings.
Þessi frétt Airwaves leiðir saman tónlistarmenn og fagfólk, bransinn tekur yfir Pederson-svítuna birtist fyrst á Nútíminn.