
Rapparinn Sean Kingston kemur fram á miðannarballi í Verzlunarskóla Íslands 10. nóvember næstkomandi. Kingston hefur unnið með tónlistarmönnum á borð við Justin Bieber og Nicki Minaj og er eflaust þekktastur fyrir lögin Beautiful Girls, Beat it og Fire Burning.
Styrmir Elí Ingfólfsson, forseti nemendafélagsins í Verzló, segir í samtali við Nútímann að sagan á bakvið af hverju Kingston var bókaður á ball í skólanum sé ansi skemmtileg.
„Fyrir busaballið okkar 10. september myndaðist orðrómur í skólanum um að Sean Kingston væri að koma og spila eftir að þetta tíst birtist á Twitter,“ segir hann og vísar í tíst frá Adda Bombu hér fyrir neðan:
Sean Kingston kemur á Busaballið, heyrðuð það fyrst hér.
— Addi Bomba (@AddiBomba) August 24, 2015
„Strákurinn sem birti þetta tíst var einfaldlega að grínast á þeim tíma en eftir þetta þá ákváðum við í stjórn NFVÍ að athuga hvort þetta gæti gengið upp,“ segir Styrmir.
Eftir marga tölvupósta og mikil samskipti við umboðsskrifstofuna í Bandaríkjunum komust við að samkomulagi. Við sáum fram á að geta framkvæmt þetta vel.
Styrmir segir að þetta sé skemmtileg áskorun fyrir nemendafélagið enda stór viðburður. „Við í skólanum erum mjög spennt fyrir ballinu,“ segir hann.
DJ JAY-O og Úlfur Úlfur hita upp og ballið verður haldið í Vodafonehöllinni. 1.600 miðar verða í boði að sögn Styrmis og þar af 400 miðar fyrir nemendur sem eru ekki í Verzlunarskólanum.
„Við búumst við því að það muni seljast upp á ballið mjög hratt enda teljum við að þetta sé frægasti tónlistarmaður sem hefur spilað á menntaskólaballi hér á landi,“ segir Styrmir.
Nemendum Verzló var tilkynnt um komu Kingston í morgun með þessu myndbandi.
Þessi frétt Sean Kingston kemur fram á balli í Verzló, hugmyndin kom eftir grín á Twitter birtist fyrst á Nútíminn.