
Ólafur Darri Ólafsson fer með hlutverk í Zoolander 2, sem verður frumsýnd á næsta ári. Ben Stiller framleiðir, leikstýrir og fer með aðalhlutverk í myndinni sem beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu en fyrri myndin sló eftirminnilega í gegn.
Ólafur Darri segir í samtali við Nútímann að hann hafi tekið þátt í tökum á myndinni í Róm í sumar. „Það er búið að taka hana upp og hún verður frumsýnd í febrúar á næsta ári. Þetta var ógeðslega skemmtilegt,“ segir hann en hann hafði aldrei komið til Ítalíu áður en kallið frá Ben Stiller kom.
Ólafur var mjög hrifinn af fyrri myndinni sem hann segir að sé ein fyndnasta mynd allra tíma. Hann bíður sjálfur spenntur eftir framhaldinu en á meðal annarra leikara í myndinni eru Penelope Cruz, Owen Wilson, Kristen Wiig og Will Ferrell. Þá koma Justin Bieber og Kanye West fram í myndinni.
Ég er sjálfur Zoolander-fan dauðans. Í hreinskilni sagt, þá er þetta er ein af þeim myndum sem mig langar mest að sjá. Ég hefði verið til í að snúa rassinum í vélina og borga með mér!
Spurður hvaða tískuljón hann leikur í myndinni segir Ólafur að hann vilji láta það koma í ljós.
„Ég er ekki að reyna að vera erfiður,“ segir hann léttur. „En þetta er það skemmtilegt og það klikkað að það er lang skemmtilegast að fá að horfa. En án gríns: Ef fólk hóstar þá gæti það misst af mér.“
Nýtt á Nútímanum: Íslenskar kvikmyndir hafa farið sigurför um heiminn en er einhver búinn að sjá þær?
Ben Stiller kom hingað til lands sumarið 2012 til að leikstýra og leika í kvikmyndinni Secret Life of Walter Mitty. Ólafur Darri lék í myndinni og urðu þeir góðir vinir.
„Það er gaman að fá að vinna aftur með Ben,“ segir Ólafur auðmjúkur. „Einhverra hluta vegna þá bauð hann mér þetta.“
Þessi frétt Ólafur Darri í Zoolander 2: „Hefði verið til í að snúa rassinum í vélina og borga með mér!“ birtist fyrst á Nútíminn.