
Einn var fluttur á bráðamóttöku eftir að eldur kom upp í fjölbýlishúsi við Brekkugötu á Akureyri á þriðja tímanum í dag. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði Akureyrar kviknaði í eldavél í kjallaraíbúð í fjögurra hæða fjölbýlishúsi við götuna. Þetta kom fram á vef Mbl.
Við komuna á staðinn barst reykur upp allar hæðir hússins og eldur farinn að loga í milliveggjum. Allir íbúar reyndust komnir út á götu en þrír voru í húsinu þegar eldsins var vart.
Sá sem var fluttur á bráðamóttöku er íbúi í kjallaraíbúðinni þar sem eldurinn kom upp.
Hann var fluttur á bráðamóttöku til athugunar en ástand hans er ekki talið alvarleg. „Það er í raun mikil mildi að ekki fór verr,“ segir Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri. Húsið sem um ræðir er gamalt timburhús og er klæðningin afar eldfim.
Slökkviliðið lauk störfum á vettvangi á fjórða tímanum og hefur vettvangurinn verið afhentur lögreglu.