
Alls voru 157 lög send inn í Söngvakeppnina í ár. Það eru 25 fleiri lög en í fyrra. Sjö manna dómnefnd mun nú velja á milli þeirra áður en 10 lög verða kynnt fyrir þjóðinni. Í valnefndinni eru fulltrúar frá RÚV, Félagi íslenskra hljómlistamanna og Félagi tónskálda- og textahöfunda. Lögin 10 verða tilkynnt í janúar.
„Þetta er um það bil tuttugu prósenta aukning á innsendum lögum miðað við í fyrra. Það er auðvelt að leiða líkum að því að þátttaka Hatara og gott gengi hafi ýtt við lagahöfundum í landinu,“ segir Björg Magnúsdóttir sem situr í framkvæmdastjórn keppninnar.
„Allir senda lög inn undir dulnefni. Nú tekur valnefnd til starfa og það er bara fullt af mikkum, músum og andrésínum – þannig að þau vita ekki hverjir eru á bakvið hvaða lög,“
Undankeppnir Söngvakeppninnar fara fram þann 8. og 15. febrúar í Háskólabíói og úrslitin ráðast 29. febrúar í Laugardalshöll. Sigurlagið verður fulltrúi Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, í Rotterdam í Hollandi í maí á næsta ári. Þetta kom fram á vef RÚV.