
Nýjasta uppfærslan í Tesla-rafbílnum er nokkurs konar sjálfstýring. Ansi magnað. Kristín Pétursdóttir, útsendari Nútímans, tók sénsinn og lét bílinn keyra sig frá miðborginni upp í Mosfellsbæ og til baka. Sjáðu hvernig það gekk í myndbandinu hér fyrir ofan.
Athugið að sérfræðingur var með í för og var tilbúinn að grípa í stýrið ef Kristín tók upp síma eða varalit. Nútíminn mælir að sjálfsögðu ekki með því að nokkur maður treysti sjálfstýringu á borð við þessari fyrir lífi sínu.
Búnaðurinn samanstendur af radar sem er framan á bílnum, myndavél í framrúðunni sem les af hraðaskiltunum í umferðinni, nálægðarskynjurum sem eru með sónar og svo nýtir tæknin einnig GPS-punkta.
Búnaðurinn auðveldar ökumanninum að skipta um akrein en bíllinn gerir það sjálfur þegar færi gefst ef ökumaðurinn hefur gefið honum merki. Þá les búnaðurinn umferðina sem framundan er og getur miðað hraðann út frá því.
Búnaðurinn á að auka öryggi bílstjóra og farþega með því að vara við því ef farið er yfir á ranga akrein og taka í taumana nálgist hann kyrrstæðan bíl of hratt.
Sverrir Bollason, umhverfisverkfræðingur hjá VSÓ ráðgjöf, hélt erindi á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar í Hörpu um helgina um aðstæður fyrir sjálfakandi bíla á Íslandi. Hann segir í raun alla nýja bíla í dag vera hálfsjálfvirka að einhverju leyti og geti leyst afmörkuð verkefni, en að bílar sem geti alfarið séð um aksturinn séu væntanlegir.
Nútíminn gerði á dögunum samstarfssamning við framleiðslufyrirtækið Skot um framleiðslu á myndböndum. Þetta er því aðeins byrjunin. Á næstunni birtum við miklu fleiri myndbönd um hvað sem er. Við erum rétt að byrja — fylgist með!
Þessi frétt Við fórum á sjálfkeyrandi Teslu frá miðborginni upp í Mosfellsbæ og lifðum það af birtist fyrst á Nútíminn.