
Auglýsing Dekkverks í Kópavogi fyrir West Lake harðkornadekkin hefur vakið mikla athygli í dag. Margir hafa gagnrýnt auglýsinguna á samfélagsmiðlum en hún sýnir nokkurs konar kvenlíkama mótaðan úr dekkjum. Þá hafa fjölmargir haft samband við verkstæðið í dag og kvartað undan auglýsinginni. Þetta kemur fram á Vísi.
Guðmundur Örn Guðjónsson, eigandi Dekkverks, segir í samtali við Vísi, að auglýsingin hafi verið birt vegna þess að þeim fannst myndin flott. Hann skilur ekki af hverju auglýsingin olli svona miklum usla.
„Það var ekki ætlunin að móðga neinn og við erum ekki viljandi að reyna að móðga fólk,“ segir Guðmundur Örn á Vísi.
Þessi viðbrögð koma mér mjög á óvart þar sem við vorum með sambærilega mynd af karlmanni í fyrra sem var búið að móta svona í dekk og fengum mjög góðar viðtökur við því. Ég skil ekki hver munurinn er á þeirri mynd og myndinni sem við birtum núna.
Myndin kemur frá framleiðanda dekkjanna og auglýsingin hefur birst víða um heim. Guðmundur segir á Vísi að auglýsingin hafi hvergi annars staðar verið gagnrýnd.
„Við hlæjum að þessu hérna á verkstæðinu, bæði konurnar og karlarnir sem vinna hérna. En við munum að öllum líkindum ekki nota myndir af konum í framtíðinni, bara körlum,“ segir hann á Vísi.
Þessi frétt Kvörtunum rignir yfir dekkjaverkstæði í Kópavogi, auglýsing átti ekki að móðga neinn birtist fyrst á Nútíminn.