
Hakkarahópurinn Anonymous hefur bætt vefsíðum sjö veitingastaða í Reykjavík á lista yfir skotmörk sín. Þetta kemur fram á mbl.is. Veitingastaðirnir sem um ræðir eru Restaurant Reykjavík, Þrír Frakkar, Íslenski barinn, Sægreifinn, Grillmarkaðurinn, Tapasbarinn og Fiskmarkaðurinn og ástæðan er sú að þeir bjóða upp á hvalkjöt á matseðlum sínum.
Anonymous réðist á vefsíður stjórnarráðsins og ráðuneyta um helgina og í yfirlýsingu frá hópnum kemur fram að tilgangurinn sé að fræða fólk um hvalveiðar Íslendinga. Vefsíður HB Granda og Reðursafnsins eru einnig á lista yfir skotmörk samtakanna.
Í yfirlýsingu á vefsíðunni Ghostbin kemur fram að ástæður árásanna séu þær að Íslendingar brjóti alþjóðalög um hvalveiðar og stuðli að því að ákveðnar hvaltegundir séu á barmi útrýmingar. Innan við 10% landsmanna borði hvalkjöt og meirihluti þess sé fluttur til Japans. Veiðarnar séu aðeins í fjárhagslegum tilgangi.
Sannleikurinn er sá að þeir gætu auðveldlega fundið aðrar tekjuöflunarleiðir með því að fjárfesta í hvalaskoðunarferðamennsku án þess að útrýma hvölum grimmdarlega
Þá kemur fram að tilgangurinn sé ekki að afla hökkurunum frægðar heldur að fræða fólk um hvað sé á seyði og til að þrýsta á breytingar.
Þessi frétt Sjö veitingastaðir í Reykjavík ný skotmörk hakkarahópsins Anonymous birtist fyrst á Nútíminn.